Fara í efni

Miðlægir samningar

RK 05.01 Bílaleigubílar

  • Gildir frá: 23.09.2025
  • Gildir til: 23.09.2026

Um samninginn

Samningur um bílaleigubíla tók gildi þann 23.09.2025 og gildir í eitt ár með heimild til framlengingar þrisvar sinnum til eins árs í senn.

Samningurinn nær yfir alla langtíma- og skammtímaleigu innanlands á fólksbílum, jeppum og 7-9 manna smárútum. Samningurinn nær ekki yfir leigu á sendibílum, kerrum, húsbílum, vögnum, vinnuvélum og leigu erlendis.

Markmið samningsins var að gera einfaldan, skýran og notendavænan samning og tryggja hagkvæm verð og góða þjónustu. Gerð var einföld vörukarfa sem bauð upp á gagnsæjan samanburð á seljendum. Gefin voru stig fyrir verð, þjónustu við landsbyggðina og úrval af rafmagnsbílum, ásamt umhverfisvottun.

Verð og gæði þjónustu voru notuð til að forgangsraða seljendum í beinum kaupum.

  • Í hluta A og B var því valinn einn forgangsbirgi og tveir til vara.
  • Í hluta C voru allir þrír seljendur valdir.

Röðun seljenda er eftirfarandi:

Hluti A - Rafbílar:

  1. Höldur ehf. (Bílaleiga Akureyrar)
  2. Bílaleiga Flugleiða Hertz ehf.
  3. Alp hf. (Avis).

Hluti B – aðrir orkugjafar:

  1. Höldur ehf. (Bílaleiga Akureyrar)
  2. Bílaleiga Flugleiða Hertz ehf.
  3. Alp hf. (Avis).

Hluti C - örútboð:

  • Alp hf. (Avis).
  • Bílaleiga Flugleiða Hertz ehf.
  • Höldur ehf. (Bílaleiga Akureyrar)

Kaup innan samnings

Alltaf skal leigja rafmagnsbíla ef hægt er, miðað við aðstæður og þarfir kaupanda hverju sinni (sjá reglugerð nr. 1330/2023 um opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum).

Hægt er að velja að leigja bíl með ónegldum vetrardekkjum eða heilsársdekkjum á því tímabili sem nagladekk eru leyfð.

Samkvæmt tilmælum frá Fjármálaráðuneytinu eiga ríkisstofnanir ekki að kaupa kaskó tryggingu.

Athugið að leigja skal bíl með eins löngum fyrirvara og mögulegt er.

Bein kaup

Sjá verð og bílaflokka undir flipanum „Skoða kjör“. Einungis er hægt að óska eftir bíl í ákveðnum flokki, ekki er hægt að velja sérstaka bílategund. Hægt er að sjá hvaða bílategundir tilheyra hvaða flokki í verðskránni.

Í beinum kaupum skal versla við Höldur ehf. Ef Höldur getur ekki afhent bíl í þeim flokki sem óskað er eftir á þeim stað og tíma sem óskað er eftir, skal beina viðskiptum til Bílaleigu Flugleiða Hertz ehf. Ef Bílaleiga Flugleiða Hertz ehf. getur ekki afhent þá skal beina viðskiptum til Alp hf. (Avis).

  • Leyfilegt er að framkvæma örútboð ef innkaup eru hærri en 1.000.000 kr. á fjögurra mánaða tímabili.
  • Skylda er að framkvæma örútboð ef gera þarf sértækari kröfur en gerðar eru í vörukörfu vegna beinna kaupa.

Ekki er heimilt að leigja bílaleigubíla hjá öðrum en þessum þremur samningsaðilum. Undantekning er aðeins heimil ef reynt hefur verið að leigja bíl hjá öllum þremur en enginn þeirra getur afhent bíl í viðkomandi flokki, á tilgreindum stað og á umbeðnum tíma. Viðskipti utan samnings að öðrum kosti geta leitt til skaðabótaskyldu fyrir kaupanda.

Örútboð

  • Leyfilegt er að framkvæma örútboð ef innkaup eru hærri en 1.000.000 kr. á fjögurra mánaða tímabili.
  • Skylda er að framkvæma örútboð ef gera þarf sértækari kröfur en gerðar eru í vörukörfu vegna beinna kaupa.

Leiðbeiningar:

  • Við gerð örútboðs skal senda skriflega beiðni á alla seljendur innan rammasamnings. Beiðnin þarf að tilgreina allar valforsendur sem á að nota. Mælt er með því að nota sniðmát fyrir örútboð sem má finna undir flipanum „Skoða kjör“.
  • Leyfilegar valforsendur eru:
    • 10%-100% Verð
    • 0-90% Gæði (T.d. afhendingartími, viðbragðstími, afhendingarstaður, opnunartími, umhverfiskröfur)
  • Kaupandi skal ákveða tilboðsfrest sem er nógu langur til að seljendur geti gert tilboð miðað við hversu flóknar kröfur er verið að gera.
  • Seljendur eiga að skila inn skriflegum tilboðum.
  • Kaupandi má ekki opna tilboðin fyrr en tilboðsfrestur rennur út.
  • Kaupandi skal velja á milli tilboða á grundvelli valforsendna sem fram hafa komið í skilmálum rammasamnings.
  • Öll almenn ákvæði rammasamnings eiga við um örútboð, þar með taldar verðbreytingar, eftir því sem við á nema annað sé tekið fram.
  • Tveimur eða fleiri kaupendum í rammasamningnum er heimilt að fara í sameiginlegt örútboð. Ef það er gert á að líta á þarfir allra kaupenda í örútboðinu sem ein innkaup. Það þarf að taka skýrt fram hvað og hversu mikið hver kaupandi ætlar að kaupa og hvenær og hvernig á að afhenda bílinn.

Verð

Verð í verðskrá innihalda virðisaukaskatt og allan kostnað og gjöld sem leiða af framkvæmd samnings, hvaða nafni sem þau nefnast.

Þó er seljanda heimilt að rukka aukalega fyrir skil á öðrum stað en bifreið var leigð á og fyrir eldsneyti, sé tankinum ekki skilað fullum. Ekkert gjald er tekið fyrir hleðslu ef bíl er skilað með 75% hleðslu eða meira. Samtals gjald fyrir hleðslu og þjónstugjald fyrir að hlaða bílinn, ef bíl er skilað með minna en 75% hleðslu skal aldrei vera hærra en 4.000 kr en alltaf í samræmi við hleðslustöðu bíls þegar honum er skilað og ekki heldur hærra en almenn verðskrá bílaleigu segir til um. Fjársýslan áskilur sér rétt til að breyta hámarks gjaldi ef mikil breyting verður á raforkuverði.

Aukagjald fyrir skil á öðrum stað skal vera með sömu afsláttarprósentu og boðin verð í vörukörfu. Einnig má seljandi rukka kaupanda um beinan kostnað sem kaupandi stofnar til vegna bílastæðagjalda, sekta eða vegtolla. Heimilt er að innheimta kostnað við afhendingu bíla á flugvöllum. Einungis er heimilt að innheimta beinan kostnað vegna afhendingar á bíl og skal sá kostnaður vera í samræmi við gjöld Isavia.

Í ljósi þess að ekki er vitað hversu hátt kílómetragjald verður, þá er seljanda heimilt að rukka kaupanda um kílómetragjald fyrir ekna kílómetra við skil á bílnum þegar heildarfjöldi ekinna kílómetra er ljós. Sama á við um ef nýir skattar eða gjöld eru lögð á af hálfu hins opinbera þá er heimilt að hækka verð í samræmi við það með samþykki Fjársýslunnar.

Verðbreytingar

Verðbreytingar eru leyfðar einu sinni á ári. Seljandi skal senda beiðni til Fjársýslunnar um verðbreytingu fyrir 1. mars ár hvert. Beiðnin skal innihalda gamla verðlistann og nýja verðlistann, ásamt prósentubreytingu. Verðbreytingar eru háðar samþykki Fjársýslunnar. Séu ný verð samþykkt taka þau gildi 1. apríl sama ár. Leyfð verðbreyting miðast við breytingu á ársmeðaltali vísitölu neysluverðs með húsnæði, fyrir árið á undan (https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__visitolur__1_vnv__1_vnv/VIS01005.p x/). Fyrsta viðmiðunargildi þessa samnings miðast við gildið fyrir apríl 2025, sem er 649,7 miðað við grunn 1988. Sem dæmi þá miðast leyfð verðbreyting í apríl 2026 við muninn á vísitölu apríl 2025 og meðaltalsvísitölu ársins 2025.

Seljendur

ALP hf. / Avis bílaleiga
Holtavegi 10
Sími: 5914000
Tengiliður samnings
Luigi Árelíus Gala
Bílaleiga Flugleiða ehf. - Hertz
Flugvallarvegi 5
Sími: 5224400
Tengiliður samnings
Eysteinn Freyr Júlíusson
Höldur ehf. / Bílaleiga Akureyrar.
Tryggvabraut 12
Sími: 4616000
Tengiliður samnings
Pálmi Viðar Snorrason

Skoða kjör

Kaupendur geta skoðað kjör í samningi með því að skrá sig inn.